20.9.2009 | 10:00
Frá Flokksræði til Lýðræðis - Sagan sögð
SAGAN:
10. október 2008. Nýjir Tímar
"Við stöndum sameinuð um þessa undirstöðuþætti í Nýjum tímum og munum beita öllum löglegum aðferðum til að knýja þá fram, í nafni réttlætis. Þegar við höfum náð fram kröfum okkar getum við farið að ræða framhaldið. Við í Nýjum tímum bjóðum öllum Íslendingum að ganga til liðs við okkur.Allir sem vilja vinna að þessum einföldu markmiðum geta fundið samfélag hjá okkur. Leggjum öll innantóm deilumál niður og rísum upp í nafni lýðræðis og réttlætis. Hjá Nýjum tímum göngum við þvert á allar pólitískar flokkslínur og neitum að vera grundvöllur fyrir pólitískt framapot."
Ég var talsmaður í baráttuhópinum Nýjum Tímum sem hóf starf sitt í byrjun október 2008. Við stóðum að skriflegum mótmælum, héldum úti heimasíðunni www.nyjirtimar.com og "Ákall til þjóðarinnar" á facebook og gerum enn. Við skipulögðum mótmælin við Ráðherra bústaðinn, Trukkagöngunni eftirminnilegu þann 1. nóvember,héldum Skjaldborgarmótmælin á hverjum miðvikudegi við Alþingishúsið, kveiktum á kertum með Herði Torfasyni 3 helgar í röð fyrir framan Alþingishúsið í þagnaðarmótmælunum jólin 2008. Við Hörður mótmæltum líka annarstaðar, fórum með kæru til ríkissaksóknara og lögðum fram kæru vegna Glitnis. Ég stóð fyrir hundruðum skriflegra mótmæla vegna sölu á KPMG á Kaupþingi sem var stöðvuð í nóv´08, skrifuðum sænskum þingmönnunum og fjölmargt fleira. Stend fyrir slíkum skrifum enn í dag og síðasta áskorunin í kringum mál Jón Jósefs varð til þess að fjölþingmenn svöruðu og vildu taka málið fyrir á þinginu.
Við hófum farsælt samstarf með góðum hópi sem stóð að Borgarahreyfingunni - þjóðfundinum 1. desember 2008. Samstarfið og undirbúningur að fundinum heppnaðist með eindæmum vel. Við fundum strax fyrir ákveðnum samhljóm á þverpólitískum grundvelli. Þar hittum við margt gott fólk sem eru miklir vinir okkar enn í dag, Þór Saari, Lílju Mósesdóttur, Hallfríði Þórarinsdóttur, Jakobínu Ólafsdóttur, Árna Daníelssyni, Viðar Hreinssyni, Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur og Hirti Hjartarsyni.
Við unnum saman í sk. Tink - Tank hópi allt fram í mars 2009. Við hittumst þá stundum oft í viku og það var eitt það ánægjulegasta samstarf sem ég hef átt í gegnum tíðinina. Þar var gagnkvæm virðing, vinsemd, gífurlega atorka og framkvæmdarsemi sem var einstök. Þar heyrði ég hugmyndina um breytingarframboð fyrst og likaði hún mjög vel, hú var í raun alger snilld. Ég hafði engan áhuga á að fara inn í flokkana og reyna að ná lýðræðisumbótum þar eins og sum okkar gerðu. Fyrir mér er það vita vonlaust þar sem að samtryggingin er rótgróin og 4 flokkurinn í raun bara einn flokkur. Við vildum finna leið til að komast inn á þing, gera breytingar í stjórnarskrá til að uppræta spillinguna og koma á lýðræði. Leggja síðan hreyfinguna niður. sbr. " Hit and Run "
Hugmyndafræðin á bak við þetta "breytingarframboð" var unnið í Akademíuhópnum. Það sem skiptir máli í dag er sú að grundvallarhugmyndin um að ná kjöri komast inn á þing, var frumforsenda framboðsins. Að gera ákveðnar breytingar á stjórnarskrá, koma á persónukjöri og stjórnlagaþingi. Fara frá flokksræði til lýðræðis, uppræta flokksræðið á Íslandi - leggja síðan þetta "hit - and run framboð niður". Ég fór norður á Akureyri og kynnti þessa hugmynd fyrir m.a George Hollanders og Rakel Sigurgerisdóttur, í Akademíunni á Akureyri.
Við unnum þessa vinnu markvisst í 3 mánuði. Síðan ákváðum að reyna að sameina grasrótina og kynna þessa hugmynd fyrir þeim. Við buðum öllum grasrótarhópum á fund með okkur í janúar 2009 og í Reykjavíkur akademínunni. Þangað komu Lýðveldisbyltingin, Nýjjir Tímar, Byltingu Fíflanna frá Akureyri, Samtök um borgarbyggð, Þórður B. Sigrðsson, Ómar Ragnarsson og Gunnar Sigurðsson frá Borgarafundinum. Á þessum fyrsta fundi vildum við finna hvort við gætum fundið 5 sameiginlega samnefnara sem þessir hópar gætu átt sameiginlega og vinna út frá hugmyndum okkar um Breytingarframboð/ hit and run. Lilja Mósesdóttir og Þór Saari unnu síðan efnahagspakkan í stefnuskrá okkar á þessum tíma ef að til framboðs kæmi. Þessi efnahagspakki var síðar nýttur í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar seinna meir. Tillögur um lýðræðissumbæturnar komu frá Lýðveldissbyltingunni
og þær p-ssuðu vel við okkar hugmyndir um hvað væri mikilvægast að gera til að koma á persónukjöri, stjórnlagaþingi og stjórnarskrábreytingum.
Gunnar Sigurðsson lýsti því yfir á þessum sama fundi að hann skyldi ekkert í því af hverju við værum að þessu brölti og það að fara í framboð sem væri hans síðasta ósk. Hann vildi ekki á nokkurn hátt taka þátt í þessari samvinnu og lýsti því yfir staðfastlega á fundinum. Samstöða - bandalag grasrótarhópa hugði á framboð ef vel lukkaðist. Gott og vel, Gunnar kvaddi en eftir stóðu hinir hóparnir sem unnu síðan dag og nótt að koma á lögum og samþykktum nýju hreyfingarinnar sem fékk nafnið Samstaða - bandalag grasrótarhópa.
SAMSTAÐA - bandalag grasrótarhópa, meðlimir:
Nýjir Tímar: Cilla, Andri Sigurðsson og Birgitta Jónsdóttir
Akademían: Viðar Hreinsson, Hallfríður Þórarinsdóttir, Árni Daníelsson, Hjörtur Hjartarson og Þór Saari
Lýðveldisbyltingin: Baldvin Jónsson, Daði Ingólfsson, Hebert Sveinbjörnsson, Gunnar Grímsson og
Sigurður Hr. Sigurðsson
Borgarasamtökin: Gunnar og Örn
Bylting fíflanna: Rakel Sigurgeirsdóttir og George Hollanders
Yfirlýsing kom frá Samstöðu - hópnum í fjölmiðlum og hljóðaði svo:
"Samstaða -bandalag grasrótarhópa er félag sem er opið öllum grasrótarhópum og einstaklingum sem hafa áhuga á að vinna að lýðræðisumbótum og upprætinu spillingar í stjórnkerfinu."
Hafið samband við okkur samstada@gmail.com
sjá: http://www.samstada.blog.is/blog/samstada/entry/810484/
Samstaða hélt síðan borgarafund um persónukjör og kosningalög í Iðnó.
" Borgarafundur um persónukjör & kosningalög - Iðnó fimmtudagskvöldið 26. febrúar kl. 20:00"
sjá; http://www.samstada.blog.is/blog/samstada/entry/810484/
Á þessum tímapunkti ákvað Samstaða á fundi að fara í framboð. Stjórn hreyfingarinnar greiddi atkvæði um framboðið á fundi hreyfingarinnar og nú var bara að finna frambjóðendur. Það var enginn hugur í hvorki mér, Birgittu né Þór Saari að fara fram. Við vildum vinna í baklandinu eins og við höfðum gert hingað til og aftókum með öllu að fara sjálf fram þrátt fyrir að margir hvöttu okkar til þess að gera það.
Nokkrum dögum síðar vorum við Birgitta kallaðar á fund í Borgartúninu á vegum Gunnars Sigurðssonar.
Við mættum á fundinn og okkur boðið að taka þátt í framboði með þeim sem að Borgarafundinum stóðu. Þetta kom mér verulega á óvart þar sem Gunnar Sigurðsson hafði allar götur gert lítið úr "brölti" okkar sem ætluðum í framboð? Við fengum lítinn tíma til að hugsa þetta enda vorum við mjög hissa og kom þetta tilboð okkur í opna skjöldu. Okkur líkaði vel við marga þarna og vorum tvístígandi en treystum mörgum þarna úr Samstöðu en höfðum lítið unnið með Borgarafundinum.
Þá lagði Gunnar til að Herbert Sveinbjörnsson yrði formaður og Birgitta Jónsdóttir varaformaður.
Í stjórn vor: Sigurlaug Ragnarsdóttir, Lilja skaftadóttir, Heiða. B Heiðars, Herbert, Birgitta, Guðni Karlsson, Örn, Sigurður Hr. Sigurðsson, Helga Þórðardóttir, Gunnar Skúli og Baldvin Jónsson ritari.
Þá lagði Gunnar til að nafnið Borgarahreyfingin yrði notað, nafnið á hreyfingunni sem stóð að baki þjóðfundinum 1. desember 2008. Við höfðum ekkert á móti því að nota þetta nafn sem slíkt enda erum heimildir til um það hvaðan það er komið.
sjá;
Borgarahreyfingin þjóðin á þing er stjórnmálahreyfing sem var stofnuð 2009 í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi og bauð fram til Alþingiskosninganna 2009. Skoðanakannanir sýndu jafnt og þétt vaxandi fylgi við hreyfinguna frá því að framboðið var fyrst tilkynnt til fjölmiðla, þann 23. febrúar 2009. og stóð það í 6,2% síðustu daga fyrir kosningar. Í kosningunum náði Borgarahreyfingin fjórum þingsætum.
Borgarahreyfingin varð til við samruna Samstöðu-hópsins og hópa sem verið hafa að starfa að lýðræðismálum í Borgartúni 3. Framboðið hlaut nafnið Borgarahreyfingin og tengt því er unnið mikið grasrótarstarf. Á vef Borgarahreyfingarinnar stendur að hún hreinsa út spillingu, koma á virkara lýðræði og skýrri þrískiptingu valdsins. Borgarahreyfingin styður persónukjör og hefur lýst því yfir að hreyfingin verði lögð niður eftir að markmiðum hennar hefur verið náð. Meðal annara stefnumála er andstaða við verðtryggð lán, þjóðaratkvæðagreiðslur óski 7% þjóðarinnar þess og stjórnlagaþing haustið 2009.
Merki Borgarahreyfingarinnar appelsínugul slaufa vísar til appelsínugula borðans sem mótmælendur sem mótmæltu friðsamlega báru.
Það má segja að flestir sem komu úr allir sem komu úr Nýjum tímum, Akademínunni og nokkrir úr Lýðveldisbyltingunni eru þeir sem hafa fylgt þingmönnunum og stofnað Hreyfinguna. Við erum ekki nýtt framboð heldur sama fólkið sem höfum unnið saman í heilt ár og afkastað ótrúlegustu hlutum. Við erum með mjög skýra stefnu, afkastamikla einstaklinga í okkar baklandi sem er mjög tryggt og sterkt, baklandið er afraksturinn af þeirri vinnu sem við höfum innt af hendi sl. ár. sem ég kýs að kalla grasrót.
Við lifum á hröðum tímum þar sem við verðum að einblína af fullum krafti á það sem skiptir alla landsmenn máli, hafa hag þeirra ávallt í fyrirrúmi og klára verkefnalistann okkar sem að við settum upp í janúar 2009.
Það skiptir mig litlu máli hvernig það er unnið svo fremur bara það sé á hreinu að menn vinni saman með heilindin og með hag allra í fyrirrúmi. Grasrótin er öflugasta aflið og það er ekki hægt að staðsetja heldur er það sjálfstætt starfandi afl um allt samfélag. Það hefur til að mynda sýnt sig best í máli Jóns Jósefssonar hversu öflugt bakland okkar er þar sem heill her sérfróðra manna rís upp og slær um hann skjaldborg. Svona vinnst þetta eingöngu að mínu mati, aldrei að gefast upp, halda áfram, keyra hlutina áfram af hörku, gefum öllum tækifæri til að sanna sig og vera með, jákvæð og með sigur að leiðarljósi. Afkomendur okkar eiga það skilið frá okkur að við gefumst ekki upp, við viljum heldur ekki kenna þeim að gefast upp og framtíð þessa lands, sem að þau eiga rétt á að búa í, er í húfi.
Í þessum anda hef ég alltaf kosið að starfa og starfa enn.
Ég syrgi ekki nöfn hreyfinga, þær koma og fara. Ég vinn heldur ekki í flokkum. Ég verð aftur á móti sorgmædd þegar að ég finn krafta fólks þrjóta vegna leiðinda, misskilnings og valdabaráttu. Ég á ekki hreyfinguna frekar en byltinguna, þær eiga sig sjálfar og eru bara uppspretta grasrótarinnar. Grasrótin er lifandi afl, situr ekki mikið inni á skrifstofum eða á fundum. Grasrótin framkvæmir í takt við það sem hún talar. Að finna að maður hafi tekið enn eitt skrefið í átt til lýðræðis var og er ólýsanleg tilfinning sem verður aldrei af manni tekin.
Baráttukveðja og Lifið Heil!
Cilla
www.hreyfingin.blog.is
18.9.2009 | 17:10
Borgarahreyfingin breytir sér
Við höfðum lagt fram tillögur að samþykktum fyrir hreyfinguna sem voru í anda uppruna hennar og tilgangs til mótvægis við aðrar tillögur að samþykktum sem umturna hreyfingunni, opna á það að gjörbreyta stefnuskránni og beinlínis gera aðild þingmanna að flokknum ólöglega. Tillögur okkar voru felldar án rökstuðnings. All flestar tilraunir okkar baklands til breytinga við hinar nýju samþykktir voru einnig felldar.
Sá hópur sem nú hefur gert Borgarahreyfinguna að sinni, hefur vafalítið ástæður til að efast um störf okkar. Kannski misskildum við hlutverk okkar þegar við ákváðum að sinna stefnumálum Borgarahreyfingarinnar á þingi í stað þess að einbeita okkur að hugmyndafræði þessara sjálfskipuðu lykilmanna.
Er það hugsanlegt að það séu okkar alvarlegustu mistök að hafa tekið þingstörf fram yfir daglegt samneyti, samræðu og karp við þetta ágæta fólk, sem þoldi bersýnilega ekki við í tómarúminu eftir kosningaslaginn og einhenti sér, svona frekar en ekkert, í uppbyggilegt og stranglýðræðislegt niðurrif á störfum okkar þriggja, þess ógæfufólks hreyfingarinnar sem tekið hafði sæti (þeirra) á Alþingi. Allt er jú betra en aðgerðarleysið.
Við aðstæður sem þessar, þar sem svo herfilega rangt er gefið að sumra mati, skiptir undarlega litlu hvernig spilað er úr stokknum, niðurstaðan verður alltaf vitlaus. Og þess vegna verður allt vitlaust - hvenær sem tilefni gefst eða jafnvel án tilefna.
Þessi afstaða nýrra flokkseigenda, þar sem veruleikinn er jafn skakkur og raun ber vitni, elur iðulega af sér örvæntingarfullar tilraunir til leiðréttingar, líkt og dæmin sanna. Boðað var til tilefnislauss aukaaðalafundar í kjölfar kosninga svo hægt væri að kjósa rétt fólk í stjórn - úr því svona illa tókst til með þingsætin. Sú stjórn reyndist hins vegar haldin meiri sjálfseyðingarhvöt en svo að áður en varði hafði hún splundrað sjálfri sér með sjálfbærum hætti; þ.e.a.s. án nokkurrar utanaðkomandi aðstoðar.
Sú dapra reynsla kemur þó ekki í veg fyrir að þetta sama fólk hefur nú ákveðið að endurtaka leikinn; boðar til landsfundar með háskalega stuttum fyrirvara og raðar sér með postulegum hætti í enn eina stjórnina sem nú á að hafa þann starfa helstan að leiðrétta ákvarðanir þingmanna og nær 14.000 kjósenda. Og úr því menn voru byrjaðir munaði þá ekki um að breyta eðli og inntaki hreyfingarinnar og stefnuskránni í leiðinni. Þeirri stefnuskrá og þeirri hreyfingu sem kjósendur gáfu atkvæði sitt í vor.
Lýðræði er samræða um val, flokksræði er samráð um vald.
Við tökum undir með þeim lesendum sem telja vandséð hvernig okkur væri stætt á því að halda áfram einhvers konar samstarfi við títtnefndan hóp manna. Í krafti bloggsins blessaða og umræðunnar hafa of margir núverandi stjórnarmanna sært með orðum sínum, rofið trúnað og snúið sameiginlegum ákvörðunum á haus, til að geta talist trausts verðir. Í raun sýnt af sér meira ódrenglyndi og ábyrgðarleysi en vænta mætti frá svörnum pólitískum andstæðingi.
Kannski er það þetta sem gerist þegar menn fara að líta á sig sem væntanlega valdhafa í pólitísku valdabrölti fremur en hluta af skammlífri og þverpóltískri grasrótahreyfingu. Þegar þolinmæðina þrýtur gagnvart tímafrekri umræðu og hugmyndir um opna hreyfingu verða skyndilega fullreyndar og ekki á vetur setjandi.
Það stóð aldrei til að Borgarahreyfingin ílentist á Alþingi. Í því felst styrkur okkar ekki síst. Við lítum á það sem lýðræðisleg forréttindi að geta starfað á þingi án þess að binda hug okkar og hjarta við næstu kosningar. Geta fylgt sannfæringu okkar sem fulltrúar kjósenda, óháð sýndarárangri skoðanakannanna og atkvæðaveiðum.
Við höfum fram til þessa ekki svarað dylgjum og meiðingum stjórnarmanna Borgarahreyfingarinnar. Þetta er okkar fyrsta og síðasta athugasemd af þessu tagi.
Við hlökkum til að sinna áfram þeim verkefnum sem kjósendur Borgarahreyfingarinnar fólu okkur og komu fram í stefnuskrá hreyfingarinnar fyrir kosningar. Samkvæmt þeirri stefnu munum við vinna hér eftir sem hingað til.
Birgitta Jónsdóttir
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari,
eru þingmenn.
18.9.2009 | 13:20
Ályktun
Reykjavík 18. september, 2009
Ályktun frá þinghópi Hreyfingarinnar
Þinghópur Hreyfingarinnar hafnar alfarið tilraunum Breta og Hollendinga til að reyna að hafa áhrif á þá fyrirvara sem Alþingi setti við ríkisábyrgðina vegna Icesave skuldbindingana. Krafa Breta og Hollendinga gerir þá efnahagslegu fyrirvara sem þverpólitísk sátt náðist um á Alþingi að engu og setur málið á byrjunarreit.
Þinghópurinn átelur einnig ríkisstjórnina fyrir þann blekkingarleik sem felst í því að kynna afstöðu Breta og Hollendinga sem jákvætt innlegg í málið þegar staðreyndin er sú að krafa þeirra kippir algerlega fótunum undan þeim efnahagslegu fyrirvörum sem ríkisábyrgðin byggir á.
HREYFINGIN
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook
18.9.2009 | 13:17
Stefnuskrá Hreyfingarinnar
Stefnuskrá Hreyfingarinnar er sú hin sama og þingmenn Hreyfingarinnar buðu sig fram undir merkun Borgararhreyfingarinnar til að hrinda í framkvæmd fyrir nýafstaðnar kosningar.
Gripið verði þegar í stað til neyðarráðstafana í þágu heimila og fyrirtækja
1. Alvarleg skuldastaða heimilanna verði tafarlaust lagfærð með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun hagkerfisins (til janúar 2008). Höfuðstóll og afborganir húsnæðislána lækki til samræmis við það. Raunvextir á verðtryggðum lánum verði að hámarki 23% og afborgunum af húsnæðislánum megi fresta um tvö ár með lengingu lána. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verði lagfærð í samræmi við verðtryggð íbúðalán. Í framhaldinu verði gert samkomulag við eigendur verðtryggðra húsnæðislána um að breyta þeim í skuldabréf með föstum vöxtum og verðtryggingarákvæði í lánasamningum verði afnumin.
2. Leitað verði leiða út úr myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða, ef þess þarf, einhliða upptöku annars gjaldmiðils.
3. Boðin verði víðtæk aðstoð við atvinnulausa um allt land með það að markmiði að aðstoða þá í að nýta atvinnuleysið sem tækifæri.
4. Skuldsett fyrirtæki verði boðin til sölu og tilboðum aðeins tekið ef ásættanlegt verð fæst. Annars verði starfsfólkinu leyft að taka yfir fyrirtæki. Skuldir eigenda verði ekki felldar niður sjálfkrafa en veita má hagstæð lán eða breyta skuldum lífvænlegra fyrirtækja í hlutafé í eigu ríkisins frekar en að afskrifa skuldir.
5. Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fái ekki að taka yfir stjórn á landinu.
6. Strax verði hafist handa við að meta heildarskuldir þjóðarbúsins og að því loknu gert upp við lánardrottna eftir bestu getu. ICESAVE-reikningar Landsbankans og aðrar skuldir bankanna erlendis verði ekki greiddar fyrr en álit óháðra sérfræðinga liggur fyrir um skyldur Íslands, m.t.t. þess að sennilega hafi verið um svikamyllu að ræða en ekki eðlilega bankastarfsemi. Rannsakað verði hvað varð um allar færslur á reikningum bankanna erlendis sem og lánveitingar þeirra til tengdra aðila, fjármunirnir sóttir og þeim skilað til eigenda. Stjórnendur og eigendur bankanna verði gerðir ábyrgir fyrir því sem upp á vantar. Samið verður við grannþjóðirnar um það sem út af stendur m.t.t. neyðarástands efnahagsmála á Íslandi og reynt að fá þær skuldir niðurfelldar. Samhliða því verði gefið loforð um að 2% af VLF Íslands renni til þróunaraðstoðar á ári í tíu ár til að sýna góðan vilja Íslendinga til að verða ábyrg þjóð meðal þjóða.
Landsmenn semji sjálfir sína eigin stjórnarskrá
1. Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess. Sama skal gilda um þingrof.
2. Bera skal alla samninga sem framselja vald undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
3. Rofin verði öll óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims.
4. Viðurkenna skal þau sjálfsögðu mannréttindi að vægi atkvæða í alþingiskosningum verði jafnt, sbr. 21. gr. Mannréttindayfirlýsingar S. Þ., enda sé það í samræmi við hugmyndir um aukið vægi þjóðaratkvæðisgreiðslu um einstök mál. Það er augljóst að ekki gengur að láta suma landsmenn hafa meira vægi en aðra í þjóðaratkvæðagreiðslu.
5. Fjöldi þingmanna miðist við fjölda á kjörskrá og verði hlutfallið 1/4000. Það er í samræmi við algengt hlutfall hjá öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við. Þetta myndi þýða örlitla fækkun þingmanna frá því sem nú er en hægfara fjölgun í framtíðinni með vaxandi fólksfjölda.
6. Kjördæmaskipan verði endurskoðuð og kjördæmum á suðvesturhorninu fækkað úr þremur í eitt.
7. Tryggð verði skipting valdsins milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, m.a. með því að ráðherrar sitji ekki á þingi.
8. Ráðherrar, þingmenn og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins gegni embætti í mesta lagi í átta ár eða tvö kjörtímabil samfellt.
9. Fyrstu málsgrein 76. greinar stjórnarskrárinnar verði breytt til samræmis við Mannréttindayfirlýsingu S. Þ. um réttinn til lífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan. 76. gr. verði á þessa leið eftir breytingu: Öllum skal tryggður réttur til grunnlífskjara sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og lífsviðurværi þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Grunnlífskjör teljast vera nauðsynleg næring, hreint vatn, klæði, húsnæði, læknishjálp og félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.
10. Allar náttúruauðlindir verði í þjóðareigu og óheimilt að framselja þær nema tímabundið og þá aðeins með viðurkenndum gagnsæjum aðferðum þar sem fyllsta jafnræðis og arðs er gætt.
Trúverðug rannsókn á íslenska efnahagshruninu fari af stað undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta skal eignir grunaðra auðmanna STRAX meðan á rannsókn stendur
1. Tafarlaust verði sett í gang opinber rannsókn undir stjórn erlendra sérfræðinga á hruni íslenska efnahagskerfisins. Samhliða því verði sett lög sem leyfa ógildingu allra fjármálagerninga undanfarinna tveggja ára, þ.m.t. gerninga skilanefnda bankanna, og í undantekningartilfellum lengra aftur í tímann ef sýnt þykir að um óeðlilega gjörninga hafi verið að ræða.
Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla
1. Ráðningar og skipanir í embætti og þ.a.l. uppsagnarfrestur allra embættismanna sé í samræmi við það sem almennt gerist hjá stjórnendum á vinnumarkaði. Nánari útfærsla verður gerð í samráði við Kjararáð.
2. Tiltekinn minnihluti þingmanna geti boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvörp sem Alþingi hefur samþykkt.
3. Hæfi umsækjenda um störf hæstaréttar- og héraðsdómara verði metið af hlutlausri fagnefnd skipaðri af Alþingi eftir tilnefningu Hæstaréttar. Ráðherra beri að velja dómara úr hópi þeirra sem fagnefndin telur hæfasta.
4. Ráðið verði í stöður innan stjórnsýslunnar á faglegum forsendum.
5. Fastanefndir þingsins verði efldar. Nefndarfundir verði almennt haldnir í heyranda hljóði. Gerð verði krafa um að fastanefndir afgreiði öll mál og skili niðurstöðu innan ákveðins tíma.
6. Settar verði siðarreglur fyrir alþingismenn, ráðherra og æðstu embættismenn framkvæmdavaldsins og til þess ætlast að þeir m.a. geri grein fyrir öllum eignum og skuldum, stjórnarsetu í fyrirtækjum og upplýsi jafnharðan um allar breytingar á þessu sviði. Þingmenn, ráðherrar og embættismenn beri ábyrgð á gjörðum sínum.
Lýðræðisumbætur STRAX
1. Stjórnlagaþing fólksins í haust
2. Persónukjör í alþingiskosningum
3. Afnema 5% þröskuldinn
4. Þjóðaratkvæðagreiðslur
5. Ný framboð fái sama tíma í fjölmiðlum og sama stuðning og aðrir stjórnmálaflokkar
Hreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.
18.9.2009 | 13:16
Yfirlýsing - Hreyfingin - Samstaða um réttlæti og almannahag
Hópur fólks, þar með taldir þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar og tveir varaþingmenn, hafa komið sér saman um stofnun nýrrar hreyfingar með það að markmiði að framfylgja upprunalegri stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar og veita grasrótarhreyfingum rödd á Alþingi. Hópurinn mun innan skamms leggja fram samþykktir sem miða að því að lágmarka miðstýringu og opna fleiri en skráðum meðlimum þátttöku, enda verður ekki haldið sérstaklega um
félagaskrá.
Með þessu telur hópurinn sátt tryggða í baklandinu, enda ekkert til fyrirstöðu að Borgarahreyfingin í núverandi mynd geti ekki verið hluti af þessari hreyfingu eins og önnur grasrótarsamtök.
Það er trú hópsins að hreyfingin geti ekki verið þverpólitískt bandalag almennings sem vill uppræta flokkseigendaklíkur á sama tíma og hún útiloki samstarf við fólk og hópa vegna strangra inntökuskilyrða. Þá er vænlegra að vinna þverpólitískt innan þings sem utan með áherslu á hin upprunalegu stefnumál. Stefnuskráin er verkefnalisti, og þegar hann er tæmdur mun hreyfingin, eins og lofað var, vera lögð niður. Það er því hryggðarefni að sú stefnuskrá sem lagt var af stað með í upphafi hefur í undangenginni orrahríð orðið að aukaatriði og gerðar tilraunir til að taka inn fjöldi annarra málefna sem aldrei var sammæli um né ætlunin að sinna. Markmiðin eru þar með orðin óljós, og hugmyndin um skyndiframboð í takmarkaðan tíma með fá málefni er að engu orðin. Skærasta birtingarmynd þess, hin nýsamþykktu lög Borgarahreyfingarinnar, snúast þess í stað um völd, valdheimildir, valdboð, refsingar, brottvikningu, hljóðritanir og það að stofna stjórnmálaflokk með stjórnmálamönnum; enn einn flokkinn.
Það stóð aldrei til að Borgarahreyfingin ílengdist á Alþingi. Í því fólst styrkur hennar ekki síst, enda líta þeir þingmenn hennar sem hér eiga hlut á það sem lýðræðisleg forréttindi að geta starfað á þingi án þess að binda
hugi sína og hjörtu við næstu kosningar. Geta fylgt sannfæringu sinni sem fulltrúar kjósenda, óháð sýndarárangri og atkvæðaveiðum. Hreyfingin ætlar að vera sameiningartákn þeirra sem sjá enga von í flokkakerfinu, og trúir
því að saman getum við rutt úr vegi þeim hindrunum sem hafa staðið í vegi fyrir raunverulegu lýðræði á Íslandi.
Hreyfingin
Talsmaður Hreyfingarinnar uns ráðin hefur verið framkvæmdarstjóri er:
Daði Ingólfsson, s. 822-9046 dadi@1984.is
hreyfingin.blog.is
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar